23.04.2015 03:11
Gróska í menningu Eyjamanna.
Mikil gróska í menningu
Eyjamanna á fastalandinu þessa dagana, má þar helst nefna:
Stella
Guðmundsdóttir, myndlistarkona við eina af vatnslitamyndum sínum.
92 ára Eyjakona heldur
sína fyrstu málverkasýningu.
Stella Guðmundsdóttir, heldur sína fyrstu einkasýningu 92 ára að aldri. Stella sem fæddist
í Vestmannaeyjum 1923 hóf ekki að mála fyrr en hún varð 77 ára. Sýningin er í
matsal hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar, þar sem hún dvelur og er opin virka
daga frá kl. 8:00 til 16:00.
Sýningin er öllum opin en henni lýkur 1. maí n.k.
Hér má lesa viðtal við Stellu á vefnum kopavogsbladid.is af þessu tilefni.
Bjartmar á Björtum dögum í Hafnarfirði.
Bjartmar Guðlaugsson verður með málverkasýningu og
tónleika á BJÖRTUM DÖGUM í Hafnarfirði.
Sýningin sem nefnist "Hljómsveit hússins" opnar kl. 15:00 á sumardaginn fyrsta, 23.
apríl og stendur til sunnudagsins 26. apríl. Sýnt er í andyri Bæjarbíós við
Strandgötu. Opið verður frá 13:00-17:00, aðgangur ókeypis.
Á föstudagskvöldið 24. apríl kl. 21:00 heldur Bjartmar tónleika á sama stað, forsala
miða er í Bæjarbíói og við innganginn.
Eyjakonur með samsýningu.
Á laugardaginn 25. apríl, kl. 14:00 opna
málverkasýningu Eyjakonurnar Jóhanna Hermansen
og Ósk Laufdal í Café Mezzo, Iðuhúsinu
við Lækjargötu 2a. Sýningin stendur til 31.
maí. Allir eru velkomnir.
Eyjakvöld undir Eyjafjöllum laugardaginn 9. maí
Blítt og Létt hópurinn sem
er kunnur fyrir sínar einstöku söngskemmtanir verður með Eyjakvöld í Gamla
fjósinu undir Eyjafjöllunum laugardaginn 9. maí. Að venju verður textum varpað
á tjald þannig að allir geti sungið með. Gleðin hefst kl. 22:00 - Verð á söngvakvöldið er kr. 2000.-
Borðapantanir fyrir matargesti í síma 487-7788
Lokakaffi Heimaeyjar 10. maí.
Kvenfélagið Heimaey
heldur sitt árlega "Lokakaffi" sunnudaginn 10. maí, frá kl 14:00-17:00 á Grand
Hótel, Sigtúni 38. Kaffið hefur ævinlega verið vel sótt og margur Eyjamaðurinn haft
þann árlega sið að mæta, hitta gamla félaga, spjalla og eiga ánægjulega
dagstund yfir glæsilegu kaffiborði. Ekki er verra að allur ágóði kaffisölunar rennur
til líknarstarfa félagskvenna.
Þær þráðinn spunnu.
Innan
skamms gefur Gunnhildur Hrólfsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur út bók sína; Þær þráðinn spunnu. Sýnishorn af sögu
kvenna í Vestmannaeyjum frá 1835 til 1980. Bókin er um 460 blaðsíður, myndskreytt
og prentuð á vandaðan pappír með harðspjaldakápu og gylltri áletrun. Til 10. maí er hægt að skrá sig fyrir sérstöku eintaki af bókinni.
Lesa má nánar um bókina hér.
.