Pistlar


 Botnar úr Geysisferð 2008 . Fyrripartar eru eftir Guðjón Weihe .

          Festu botn við fyrripart
          Fljótt og hönduglega

 

Þetta finnst mér helst til hart
því fer brösuglega

Þetta er ekki gott svona seinnipart
Sem fólkið mun í þig bera

Ég vil ekki heyra kvein og kvart
----- nema gáfulega                         

Strákurinn er ekki smart
stútfullur af trega

Ljóðagerð er sálarskart
ég f´ýla það mátulega

Sýndu stillingu enga fart
mun það mikils vega

Það gerist furðufljótt
á undragóðum hraða

Föt og skór og annað skart
það toppar mátulega 

Hér er yfir öllu bjart
etið konunglega

Slíkt mér þykir heldur hart
með hjartað fullt af trega

Það bara er svo fjári hart
líkt og banalega

Stórt lítið eitthvað smart
nei ekki bara mátulega

 

Ef mig prýðir gullið skart
þá ég botna mátulega

Gerðu þetta svaka smart
fumlaust örugglega

Ekki nota orðaskart
ortu almilega

Ég get nú varla orða vart
er með svo mikinn trega

Láttu hann vera voða smart
og varpaðu burtu trega

Segir Weihe og gefur start
en lúin í veikindalega

Finnst mér það nú fjandi hart
fastandi á maga

Já ég þekki Siggu smart
með fagran botn mátulega

Heldur finnst mér þetta hart
hendi þessu fram með trega

Þó ég sé nú ekkert smart
skal ég samt nú reyna

Ómar gefur okkur start
byrja ég þó treglega

          Herramenn og fögur fljóð
          fléttum saman brellið ljóð

Aðalmálið er að vera hér saman.

Erum ekki alveg óð
þó það heyrist ferleg hljóð

Furðulega erum góð
þetta Eyjastóð

Syng ég til þín fagran óð
sem settur verður í ljóðasjóð

Síðan etum við saman
og höfum af lífinu gaman

Þið sem eruð alltaf góð
og leggið inn í söngvasjóð

Semja sam falleg ljóð
og saman syngja

Hrærum yfir skáldaglóð
ljóð sem sæmir okkar þjóð

Setjum niður systkin góð
og syngjum lög í vígamóð

Minningum ég safna í sjóð
setjist niður og verið góð

Bráðum verðum alveg óð
en endum saman sæt og rjóð    

 

Verum hressir splæsum bjóð
etum fisk við verðum fróð                      

Klár við skulum hefja hljóð
yfir kaldan jötumóð                         

Sit ég við það sveitt og rjóð
önug döpur andstutt móð    

 

Í fjörunni hann Finnur stóð
heima beið konan óð

Hvernig sem á því stóð
varð hún Sara eldrjóð

Konan er sem rósin rjóð
rekur alloft upp óhljóð

Allir í stuði og gaman nú
sprellum og förum í snúsnú                 

Fantagóð er þessi þjóð
nema að þegja og hafa hljóð

Syngjum dönsum öll í hóp
oft er fjör í kór

Lukkan er oss ljúf og góð
göngum saman sæt og rjóð

Söfnum nú í digran sjóð
við erum öll svo góð

Látum streyma í sagnasjóð
syngjum saman eins og þjóð

          Vorið nálgast vetur flýr
          vakna grös í móa

Vormánuður verður hlýr
nú er komin lóa

Um mig leikur vindur hlýr
mér fannst ég heyra í spóa

Nú er ég sem orðinn nýr
smalinn fer að hóa   

Nú er ég sem orðinn nýr
vetrarsárin gróa

Hoppa um haga sætar kýr
og sumaróð flytur lóa

Lifnar aftur lundin hýr
og syngur lítil lóa

Hér eru hestar ær og kýr
en vantar ennþá spóa                                       

Skari fugla aftur snýr
Starri Tjaldur Lóa

Blómin koma upp á ný
með brum og dróma

Ég er orðinn nokkuð hýr
liðin er nú góa

Ég er orðinn ansi skýr
bráðum syngur lóa

Spóinn vellur sprækur hýr
sprangar í túni lóa                                       

Gísli orðinn eins og nýr
og ætlar sér að hóa

Ekki grænu snýtir fýr
útí móa stekkur lóa

Golan kemur mjúk og hlý
í móa við felum spóa

Aftur verður sálin hýr
er heyrist vella í spóa                              

Sumarið að okkur snýr
með lunda spóa og kjóa                                       

Þegar aftur sumar snýr
syngur fögur lóa

Gott væri að vera í góðum gír
á bílnum hans Góa

Margur maður gerist hýr
og lætur makann róa

Milda veðrið aftur snýr
svo úti gaggar tóa

Í góðum ÁtVR gír
raddir að Geysi hóa

Sumar ylur oft er hlýr
úti kveður lóa 

Milda veðrið aftur snýr
syngur í heiði lóa

Maður verður eins og nýr
er leysa tekur snjóa

Sólin hlær og ylur hlýr
syngur í sumar lóa

Lesnir voru upp ýmsir botnar en Gullöndina hlaut að þessu sinni
Þórunn, fyrir þennan botn

Festu botn við fyrripart
Fljótt og hönduglega
Finnst mér það nú fjandi hart
fastandi á maga

Önnur verðlaun hlaut Sigga Helga

Herramenn og fögur fljóð
fléttum saman brellið ljóð
Bráðum verðum alveg óð
en endum saman sæt og rjóð

Eins og gefur að skilja var hlutverk dómarans afar erfitt bæði hvað varðar fjölbreytni í ljóða gerðinni og svo ýmissa tengsla við marga ljóða smiði . Var því stór hætta á klíkuskap og að dómarinn yrði ásakaður um hlutdrægni .Gerði dómarinn af því tilefni eftirfarandi stöku .).

Fátt ég sagt get sannara
sama hvað þú nauðar
Hann ber af botnum annara
botninn hennar Auðar

Samantekið af einræðisdómara

 

 Ómar Runólfsson

  Gísli Helgason .

 

 

Minningabrot.
Þegar ég var eitthvað 6 til 7 ára stóðu yfir miklar framkvæmdir við gatnagerð í Eyjum. Þá var farið að malbika göturnar. Á þeim dögum voru hænsni víða og kýr og kindur við sum húsin. Það var alvanalegt að reka kýrnar inn í dal eða víðar um Heimaey og þá notuðu þær tækifæri og skitu á aðalgöturnar. Við peyjar vildum hjálpa til við lagfæringu gatnanna. Einu sinni var verið að moka grjóti upp á vörubíl. Ég vildi hjálpa til, tók steina og reyndi að kasta upp á vörubílspallinn. Og það tókst, en ekki vildi betur til en svo að einn steinninn flaug af pallinum og beint í hausinn á mér. Ég harkaði af mér, strauk höndunum um höfuðið og þær urðu blóðrauðar. Þá kom ein mágkona mín, sem var með mig í fóstri, tók mig og hlúði að mér. Síðan þá hef ég ekki tekið þátt í gatnagerð.

 

Malbikun gatnanna hafði stórbætandi áhrif á vetrarleiki okkar krakka. Mun betra var að renna sér niður brekkurnar á skíðasleðum eftir malbikun. Við bjuggum svo vel að getað farið lengst upp í Strembu og látið okkur vaða niður alla Strembugötu, Heiðarveginn og niður undir Strandveg. Þetta var samfelld brekka og það mjög löng og við komumst oft á fljúgandi ferð. Bílaumferð var sem betur fer ekki mikil þá.

Það þótti undur og stórmerki þegar einn sonur Binna í Gröf eignaðist magasleða með stýri. Það fengu allir að prófa. Einu sinni var einn okkar búinn að ná fljúgandi ferð á sleðanum. Hann sér sér til skelfingar að eftir miðjum Heiðarveginum, þar sem Félagsheimilið er nú var vörubíll, sem lúsaðist niður götuna og ók eftir henni miðri. Peyinn á sleðanum sá sitt óvænna. Taldi sig ekki getað komist slysalaust fram hjá bílnum svo að hann tekur á það ráð að beygja sig niður, stefnir á miðjan bílinn, fer undir hann á milli hjólanna og kemur svo framundan honum. Aumingja bílstjórinn fékk taugaáfall.

 

Þegar bítlaæðið gekk yfir, þá voru seldar hljómplötur í Bjarma, sem var ein verslun föður míns, þegar plötusölu var hætt einhverra hluta vegna, eignuðumst við tvíburabræður spilarann. Við vorum þrír frændur, sem lékum okkur mikið saman á þessum árum. Við Arnþór og svo Lárus Grétar systursonur móður minnar. Við urðum ásáttir um að fara út í verslunarrekstur og gerðum það með stæl. Fundum út að arðvænlegast væri að selja poppkorn. Við lögðum undir okkur geymsluna í kjallaranum á Heiðarvegi 20 þar sem ég ólst upp. Glugginn var í hnéhæð og alveg passlegur fyrir krakka að standa við. Við keyptum heilan maíspoka, 45 kíló, fengum gefins litla olíueldavél og poppuðum upp úr þessu. Poppinu var pakkað í litla bréfpoka og hver poki seldur á eina krónu. Þetta var árið 1964 um sumarið. Við settum hátalarann af plötuspilaranum út fyrir og lokkuðum viðskiptavini að með tónlist. Þetta varð gríðarlega vinsælt og röðin náði stundum út á götu. Við fengum einu sinni hland fyrir hjartað, þegar lögregluþjónn birtist. Við bjuggumst við að verða sektaðir, en hann keypti þrjá poka af poppi.
Við færðum út umsvifin og seldum einnig Akrakaramellur. Stundum var svo mikið að gera að nokkrar vinkonur okkar hjálpuðu til. Þá hafði gamla olíueldavélin ekki undan svo að við settum smávegis af poppi í pokana, settum ópoppaðan maís með og salt og brot af karamellu. Enginn kvartaði. Viðskiptunum lauk svo um haustið þegar einhver kastaði grjóti í hátalarann og eyðilagði hann. En við poppuðum upp úr tveimur sekkjum af maís, 90 kílóum það sumarið.

Ég var þá farinn að spila á blokkflautu á þessum árum og við Arnþór lékum nokkuð saman. Mig dreymdi um að verða heimsfrægur blokkflautuleikari og reyndi hvað ég gat til þess. Einu sinni hitti ég þann ágæta mann Svavar Gests. Ég hafði kynnst honum á þjóðhátíð, enda mikill aðdáandi hljómsveitar hans. Ég spyr Svavar hvort hann vilji ekki gefa út hljómplötu með okkur tvíburabræðrum. Svavar tók því ljúfmannlega og sagði: ,,Þú værir góður að spila inn á borðplötu,, .

 

Oddgeir Kristjánsson kenndi mér á blokkflautu. Setti það ekkert fyrir sig þótt ég gæti ekki lesið nótur. Oddgeir og fjölskylda hans voru nágrannar okkar og það var stutt að fara í tíma til hans. Það var einstakt að kynnast honum. Oddgeir var mikið ljúfmenni en stundum gat hann rokið upp og þá brast hann á með suðaustan. Hann var manna fyrstur að átta sig á hversu miklir snillingar Bítlarnir voru og útsetti sum lögin þeirra fyrir Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem hann stjórnaði. Þegar leið að Þjóðhátíð, þá hringdi Oddgeir og spurði hvort ég gæti komið. Þá var hann búinn að semja nýtt þjóðhátíðarlag og safnaði okkur saman, dætrum sínum og dótturdætrum og hætti ekki fyrr en við vorum búin að læra lagið og spila það öll saman. Þá varð hann svo glaður að hann gleymdi sér gjörsamlega og söng og lék við hvern sinn fingur.
Fyrsta lagið sem ég lærði á blokkflautu er þjóðhátíðarlagið 1962, Ég veit þú kemur.
Þetta sumar fórum við Arnþór með móður okkar í hringferð með Esjunni í kringum landið. Við Arnþór glömruðum eitthvað saman um borð. Alltaf þegar ég var að verða sjóveikur, settist ég í stigann sem lá upp í farþegarýmið og spilaði Ég veit þú kemur, sem Oddgeir hafði sett mér fyrir að æfa fyrir næsta tíma. Lagið hljómaði um allt skip og í mörg ár hitti ég af og til fólk á förnum vegi, sem minnti mig á þetta. Þá urðum við Ási í Bæ góðir vinir, sérstaklega eftir að báðir fluttu suður til Reykjavíkur. Þegar Oddgeir dó rúmlega 54 ára gamall var hann að kenna í Barnaskólanum. Það varð þjóðarsorg í Vestmannaeyjum og fólk tregaði hann sáran.

Þegar Bítlalagið ,,The fool on the hill,, kom út varð uppi fótur og fit. Foreldrar mínir voru í London í innkaupaferð fyrir eina verslun sína og ég lá veikur heima. Svo þegar ég mætti í skólann kom einn vinur minn og spurði hvort ég hefði heyrt nýja bítlalagið, sagði að það væri einsog ég spilaði með Bítlunum.
Ég játaði þessu öllu og áður en ég vissi, þá var það á nokkurra vitorði að ég hefði spilað með bítlunum og ég varð heimsfrægur á Heimaey í vesturbænum í hálfan dag,
en þá komst allt upp.

 

 

Flettingar í dag: 265
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 190
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 28534
Samtals gestir: 1898
Tölur uppfærðar: 26.5.2022 16:48:02