Færslur: 2020 Febrúar
26.02.2020 21:36
Fréttabréf ÁtVR - Vorið 2020
Kæru
félagar hér kemur fréttabréf vorannar 2020.
Framundan eru
skemmtilegir viðburðir, samvera, söngur og gleði. Stjórn ÁtVR er ánægð með
viðtökur og mætingu félagsmanna á þá viðburði sem fram hafa farið og vonast
eftir áframhaldandi góðri mætingu.
Starfið frá síðasta fréttabréfi:
Aðventukvöld í desember
Aðventukvöld ÁtVR var
haldið í Seljakirkju 9.desember og mættu þangað um 100 manns. Aðventustundin
var í senn hátíðleg, fræðandi og skemmtileg.
Við upphaf
aðventustundarinnar tóku Hafsteinn
Guðfinnsson, Þórólfur Guðnason og Gísli Helgason á móti félagsmönnum ÁtVR og
gestum með ljúfum nótum. Eyjaklerkurinn okkar og sóknarprestur í Seljakirkju, Ólafur
Jóhann Borgþórsson flutti hugvekju
og fyrrverandi formaður ÁtVR Inga Jóna Hilmisdóttir, las jólaguðspjallið. Jóhanna
Ýr Jónsdóttir, sagnfræðingur flutti fróðlegt og skemmtilegt erindi á léttum
nótum um innlenda og erlenda jólasiði.
Eyjamennirnir
Hrefna Díana Viðarsdóttir og Sighvatur Jónsson kynntu
heimildarmynd sem þau gerðu ásamt Geir Reynissyni um þrettándann og sýndu
stiklur úr myndinni. En myndin var frumsýnd milli jóla og nýárs.
Hafsteinn, Þórólfur og Gísli spiluðu í lokin undir samsöng áður en gestir gæddu sér
á heitu kakói, smákökum og sætindum.
Eyjamessa og goskaffi
Í fyrsta sinn stóð
ÁtVR fyrir sérstakri Eyjamessu á undan hefðbundu goskaffi í samstarfi við Ólaf
Jóhann Borgþórsson, sóknarprest í Seljasókn.
Það er óhætt að segja
að þetta fyrirkomulag hafi slegið í gegn. Stjórnin reiknaði með 80 til 100
manns í messuna 26. janúar sem hófst kl. 14.00.
Fljótlega upp úr kl.
13.00 tóku gestir að streyma að og sóttu 160 manns messuna og kaffið á eftir.
Ólafur Jóhann fór á kostum í messuhaldinu, Hrefna Hilmisdóttir las
ritningarlestur og kór Seljakirkju hafði æft eyjalög sem þau sungu í bland við
hefðbundna messusálma.
Bjarni Karlsson, sá
um predikun í messunni í forföllum eiginkonu sinnar Jónu Hrannar Bolladóttur,
en þau hjón þjónuðu í Eyjum í sjö ár.
Óhætt er að segja að predikunin hafi kitlað hláturtaugarnar á sama tíma
og hún kom við viðkvæma strengi.
Seljakirkja gerði vel
við messugesti með glæsilegu kaffihlaðborði.
Það var þröng á þingi
í goskaffinu sjálfu, þar sem búið var að
dekka borð fyrir 100 manns, en með þolinmæði og samtakamætti fengu allir 160
gestirnir sæti, kaffi og meðlæti.
Helga Hinriksdóttir,
sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur í Vestmanna-eyjum eftir gos, flutti
fróðlegt erindi um upplýsingaskort og aðbúnað eldri borgara á meðan á gosinu
stóð og ástand þeirra við heimkomu.
Að erindi Helgu loknu
ræddi Guðrún Erlingsdóttir við Helgu,
Bjarna Sighvatsson og Auróru Friðriksdóttur sem öll voru staðsett í Reykjavík
þegar gosið hófst. Góður rómur var gerður að áhugaverðum sögum viðmælenda og einlægum
svörum.
Það sannaðist í goskaffinu að þröngt mega sáttir sitja og jafnvel standa
Framundan í starfinu:
Blítt og létt 14. mars
Blítt og létt mætir
aftur í Akógessalinn í Lágmúla 4, laugardaginn 14. mars. Fjörið hefst kl. 20.00
en húsið opnar klukkustund fyrr. Miðaverð er kr. 2000 og forsala fyrir
félagsmenn ÁtVR verður í Akógessalnum á þriðju hæð milli 15 og 16 laugardaginn
14. mars. Hverjum félagsmanni er heimilt
að kaupa tvo miða í forsölu. Barinn verður opin um kvöldið með léttum veitingum
á sanngjörnu verði.
Aðalfundur 19. apríl
Aðalfundur verður
haldinn 19. apríl kl 15:00 í safnaðarheimili Seljakirkju.
Fyrir utan venjuleg
aðalfundastörf mun Sigurjón Guðmundsson, flytja erindið "Minningar um leikhús í
Vestmannaeyjum" og Ragnar Jónsson á Látrum mun fjalla um spíramálið í
Vestmannaeyjum, þegar níu manns létust í kringum þjóðhátíðina 1943, eftir að
hafa drukkið tréspíritus.
Laus sæti í stjórn
ÁtVR
Elías Stefánsson og
Jóhanna Hermannsen sem gengt hafa gjaldkera og ritarastörfum munu ekki gefa
ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Væntanlega
verður röðin ekki svona löng þegar félagsmenn ÁtVR bjóða sig fram til stjórnar.
Fimm eru kosnir í
stjórn ÁtVR árlega. Stjórn vonast til þess að félagsmenn sýni áhuga og bjóði
sig fram til stjórnarstarfa. Hægt er að senda skilaboð um áhuga í gegnum
fésbókarsíðuna eða hafa samband við stjórnarmenn.
Forsala á Hálft í
hvoru tónleikana
Á aðalfundinum 19.
apríl gefst félagsmönnum ÁtVR kostur á að kaupa miða í forsölu á 3,500 kr.
Hálft í hvoru
tónleikar 8. maí
Áfram heldur fjörið, 8.
maí verður hljómsveitin Hálft í hvoru með tónleika í Akogessalnum, á þriðju hæð
að Lágmúla 4.
Hálft í hvoru er Eyjamönnum
sem sóttu Mylluhól vel kunnir en nú eru 36 ár síðan þeir spiluðu fyrst á
Mylluhól. Hálft í hvoru komu saman í fyrra í tilefni goslokahátíðar og héldu
velheppnaða tónleika í Eldheimum fyrir fullu húsi en þar fluttu þeir m.a.
goslokalagið 2019, ,,Við ætlum út í Eyjar" sem samið var af Inga Gunnari
Jóhannssyni og finnskum vini hans.
Hálft í hvoru lofa
miklu stuði enda segja þeir að stanslaust stuð hafi verið um hverja helgi þegar
þeir spiluðu á Mylluhóli. Helstu söngperlur eyjanna verða fluttar af eyjamanninum,
Gísla Helgasyni, Inga Gunnari Jóhannssyni, Eyjólfi Kristjánssyni og Örvari
Aðalsteinssyni sem halda því fram að þar sem Eyjamenn komi saman sé ekkert nema
hamingja.
Tónleikarnir hefjast
kl. 21. Miðaverð er 3900 kr. við dyrnar
en félagsmenn ÁtVR geta keypta miða í forölu á 3500 kr. á aðalfundi ÁtVR 19.
apríl. Það má búast við miklu stuði á tónleikunum. Barinn verður opinn og
áfengi, þ.e. bjór og léttvín verður selt á vægu verði, sem gæti nálgast
Mylluhólsverðið að sögn meðlima Hálft í hvoru sem eru fullir tilhlökkunar að
spila fyrir Eyjamenn.
Hagnýtar upplýsingar fyrir félagsmenn:
Greiðsla á
árgjaldi: Framvegis mun árgjald ÁtVR
sem er 2000 kr. birtast í heimabanka félagsmanna. Þeir sem vilja fá
gíróseðil í pósti eru vinsamlegast beðnir um að óska eftir því í tölvupósti
á [email protected] eða hafa samband við
stjórnarmeðlimi.
Breytt netföng eða
heimilsföng: Á heimasíðu félagsins er
tengill merktur "Gerast félagi í ÁtVR eða breyta skráningu". Þar
geta félagar breytt og uppfært upplýsingar um sig í félagaskránni. Eins er hægt
að senda tölvupóst á [email protected] og hafa samband við
stjórnarmeðlimi til að tilkynna breytt netfang/heimilisfang.
Stjórnin vonast til að sjá sem flesta á uppákomum félagsins í
vetur.
Hér er hægt að fylgjast með
starfseminni: Facebook-síða ÁtVR og Vefsíða ÁtVR
Fyrir hönd
stjórnar ÁtVR
Guðrún
Erlingsdóttir, formaður
26.02.2020 20:52
Eyjakvöld með Blítt og létt
Frestað um óákveðinn tíma
Blítt
og létt mætir aftur í Akógessalinn í Lágmúla 4, laugardaginn 14. mars. Fjörið
hefst kl. 20:00 en húsið opnar klukkustund fyrr.
Miðaverð er kr. 2000 og forsala fyrir félagsmenn ÁtVR verður í Akógessalnum á
þriðju hæð milli 15 og 16 laugardaginn 14. mars.
Hverjum félagsmanni er heimilt að kaupa tvo
miða í forsölu.
Barinn verður opin með léttum veitingum á sanngjörnu verði.
Akógessalurinn 3. hæð Lágmúla 4 á korti HÉR
- 1